Starfsemin

Endor

Hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga viðskiptavina

Árið 2020 var lærdómsríkt og krefjandi þar sem ytri aðstæður útheimtu aðlögunarhæfni og aga. Árið var líka sérstakt að því leyti að þetta var fyrsta heila rekstrarár Endor sem hluti af samstæðu Sýnar. Því fylgdu fjölbreytileg og gefandi verkefni sem gefa tilefni til ánægjulegrar vegferðar til framtíðar.

Sérhæfing Endor er að veita ráðgjöf og þjónustu í rekstri upplýsingakerfa og þá sérstaklega áskorunum tengdum hagkvæmni reikniafls og meðhöndlun sívaxandi gagnamagns. Lausnaáherslum má skipta í þrennt:

  • Búnaðar- og gagnaverslausnir – Innifela m.a. sérhæfða sölu og þjónustu miðlægra lausna sem og ráðgjöf og þjónustu við gagnaverstengda starfsemi.
  • Rekstrarlausnir - Innifela m.a. hvers kyns útvistun verkefna, sbr. alrekstur, hýsing, fjarskiptasambönd, rekstrarþjónusta, fagleg verkefnastjórn og fínstilling afmarkaðra hluta upplýsingatækniumhverfa.
  • EC-skýjalausnir (Endor Cloud) – Innifela sjálfvirknivæðingu á þjónustuafhendingu þar sem teknar eru lausnir frá sérhæfðum framleiðendum, þær staðfærðar og samþættar í þjónustur sem afhentar eru í áskriftarfyrirkomulagi.

Skipting veltu Endor

Loading...

Félagið rekur tvö dótturfélög, EC Sweden AB (stofnað 2019) og EC Germany GmbH (stofnað 2020). Starfsemi EC Sweden er umtalsverður hluti af umfangi Endor og margt spennandi þar í farvatninu. Þótt starfsemi EC Germany sé nýrri þá tókst félagið á við mjög stórt verkefni þar í samstarfi við þýska samstarfsaðila. Verkefnið var innleiðing einnar stærstu ofurtölvu Þýskalands. Ofurtölvan kemst inn á topp 50 lista yfir stærstu ofurtölvur í heiminum. Auk starfsemi í þessum löndum er Endor með þjónustuverkefni og virka starfsemi víðar í Evrópu.

Flest markmið ársins náðust og mikið þakklæti ríkir til óeigingjarns framlags starfsmanna og þess trausts sem viðskiptavinir sýndu félaginu á skringilegum tímum. Við erum stoltust yfir að hafa með hnitmiðuðum verkefnum náð að skapa ávinning og hagræðingu í rekstri hjá viðskiptavinum. Viðskiptavinir félagsins eru fáir og góðir en af um 100 viðskiptavinum er rúmlega helmingur í reglulegum viðskiptum og stór hluti þeirra viðskipta er bundinn í langtímasamninga og skapa þannig fyrirsjáanleg verkefni og framtíðartekjur.

Endor-teymið býr yfir djúpri sérhæfingu og reynslu á rekstri flókinna umhverfa með háar uppitímakröfur fyrir alþjóðlegan upplýsingatæknimarkað. Stærstu verkefni þar tengjast ofurtölvum og afhendingu á reikniafli í áskrift. Um er að ræða sérhæfða þjónustu þar sem flækjustig er mikið og að þjónustuafhendingu koma ólíkir aðilar. Þrátt fyrir ferðatakmarkanir leystu starfsmenn félagsins flækjustig í rekstrinum með skilvirkum og árangursríkum hætti. Dæmi um slíkt verkefni er samningur þar sem Endor sér um rekstur á ofurtölvum fyrir þýskan bílaframleiðanda. Ofurtölvurnar eru staðsettar í þremur gagnaverum sem leitast öll við að nýta rafmagn úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum og uppfylla ströngustu skilyrði um rekstraröryggi.

Áherslur Endor snúast um að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga viðskiptavina og nýta til þess það afl og auðlindir sem félagið hefur aðgang að. Með það að leiðarljósi er ljóst að vaxtamöguleikar félagsins aukast verandi hluti af samstæðu Sýnar. Markaðir hafa kallað á samþættingu þjónustuaðila og Sýn hefur fjölmarga sterka eiginleika sem smærri félög skortir. Að sama skapi hafa smærri einingar margt spennandi fram að færa sem fellur vel að vegferðinni. Tækifærið er stórt hvort sem horft er til breytilegra þarfa viðskiptavina, umbreytinga í lausnaáherslum, öryggissjónarmiða, fjarskipta og flutningsleiða, sívaxandi gagnamagns eða vegferðar í orkufrekari upplýsingatæknivinnslu.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.