Starfsemin

Fréttir af okkur

Árið 2020 verður lengi í minnum haft enda hefur það verið eftirminnilegt, erfitt og viðburðaríkt. Eins og hjá flestum stofnunum og fyrirtækjum hafði kórónuveirufaraldurinn mikil áhrif á starfsemi okkar. Við brugðumst fljótt við breyttum aðstæðum og gerðum fjölmargar breytingar á starfsemi okkar til að halda áfram að upplýsa, skemmta og tengja landsmenn alla.

Hér á eftir má sjá tímalínu og svipmyndir af starfseminni okkar og þeim fjölbreyttu og skemmtilegu verkefnum sem við fengumst við á árinu 2020.

Janúar
Allir geta dansað
Annarri seríu af Allir geta dansað lauk í janúar en þar kepptu tíu þjóðþekktir Íslendingar í dansi, paraðir saman við tíu fagdansara. Þáttaröðin var gríðarlega vinsæl, líkt og fyrri þáttaröð, en um 1.200 manns fylgdust með í sjónvarpssal, 1.000 klukkustundir fóru í að útbúa búninga keppenda og hvert par æfði að meðaltali um fjórar klukkustundir á dag. Allur ágóði af símakosningu í þáttunum rann til góðgerðafélaga og nutu alls sjö góðgerðafélög góðs af. Í lokaþættinum söfnuðust tæpar fjórar milljónir króna sem Stöð 2 færði Ljósinu, endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda.
Febrúar
Origo í grænt gagnaver Reykjavík DC
Origo samdi við Vodafone um að hýsa hluta af upplýsingatæknikerfum sínum í gagnaveri Reykjavík DC. Áhersla Reykjavík DC er á umhverfisvæna orku og öryggi og er gagnaverið leiðandi á Íslandi hvað varðar gæði, öryggi og staðsetningu en um leið hagkvæmt og umhverfisvænt. Gagnaverið nýtir rafmagn úr fullkomlega endurnýjanlegum orkugjöfum og uppfyllir Tier3-staðal sem tryggir m.a. lágmarksniðritíma með varaaflslausnum. Ásamt hýsingarþjónustu tryggir Vodafone öruggar háhraðatengingar til og frá gagnaverinu fyrir Origo. Vodafone er einn af eigendum Reykjavík DC.
Febrúar
Kompás vinnur til blaðamannaverðlauna
Fréttamenn Kompáss á fréttastofu Stöðvar 2 unnu til blaðamannaverðlauna 2020 fyrir viðtal ársins fyrir viðtal sitt við Margréti Lilly Einarsdóttur sem ólst upp hjá veikri móður sinni. Að baki Kompásþáttunum er frábært teymi fagfólks en þau Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi og Jóhann K. Jóhannsson stýra þættinum. Arnar Már Jónmundsson er á bak við tjöldin og er bæði framleiðandi og klippari þáttanna. Kompásþættirnir hafa fengið mikið áhorf og alls fengu þættirnir yfir 400 þúsund spilanir á Vísi.is.
Mars
Tilnefning til íslensku vefverðlaunanna
Veflausnin Klipparinn sem þróuð var hjá okkur var tilnefnd til íslensku vefverðlaunanna í flokknum stafrænar lausnir. Klipparinn sér um upptökur á öllu útvarps- og sjónvarpsefni sem er aðgengilegt á Vísi. Þar er líka umsjón með öllu sjónvarps-, útvarps- og hlaðvarpssafninu sem nær aftur til ársins 2007. Í Klipparanum er hægt að klippa þætti niður í búta, halda utan um sjálfvirka upptökudagskrá og margt fleira.
Mars
Stöð 2 eSport fór í loftið
Í mars fór í loftið ný sjónvarpsstöð, Stöð 2 eSport sem sýnir beinar útsendingar frá keppnum í rafíþróttum. Þar er sýnt frá Vodafone-deildinni en þar keppa lið á borð við Fylki, Dusty, KR og FH í leikjunum Counter Strike og League of Legends. Á Stöð 2 eSport eru einnig sýndir sjónvarpsþættir sem tengjast eða fjalla um rafíþróttir. Markmið Stöðvar 2 eSports er að kynna og byggja upp umhverfi rafíþrótta á Íslandi í samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands. Rafíþróttir eru mest vaxandi íþróttagreinin í sjónvarpi og er Stöð 2 eSport fyrsta sjónvarpsstöðin sem fjallar um rafíþróttir hér á landi og er öllum opin.
Mars
Eddutilnefningar
Stöð 2 fagnaði þrettán tilnefningum til Edduverðlauna fyrir dagskrárgerð bæði á Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Upphaflega var ráðgert að halda hátíðina með hefðbundnum hætti en fresta þurfti hátíðinni vegna COVID-19 faraldursins og því voru verðlaunin ekki afhent fyrr en í október. Þá vann Domino’s Körfuboltakvöld verðskuldaðan sigur í flokknum sjónvarpsefni ársins en þetta er í fyrsta skipti sem íþróttaefni er valið sjónvarpsefni ársins.
Apríl
Styttum landsmönnum stundir í samkomubanni
Stöð 2 og Vodafone glöddu landsmenn alla á meðan samkomubanni stóð með opnum aðgangi að Stöð 2 Krakkar, Stöð 2 Bíó og Stöð 3. Einnig bauð Vodafone viðskiptavinum sínum ótakmarkað gagnamagn á heimatengingum svo viðskiptavinir gætu notað heimatenginguna áhyggjulaust til að stytta sér stundir. Framtakið vakti mikla lukku meðal viðskiptavina sem og landsmanna allra og var mikið áhorf á miðla Stöðvar 2 á meðan á samkomubanni stóð.
Maí
Nýtt upphaf Vodafone
Í maí setti Vodafone í loftið herferð sem bar yfirskriftina Nýtt upphaf. Nafnið vísaði til innri breytinga og nýrra viðmiða hvað varðar upplifun og ánægju viðskiptavina Vodafone. Verkefnið sneri að miklu leyti að núverandi viðskiptavinum og hvernig bæta mætti upplifun og ánægju þeirra. Hluti af því verkefni var m.a. að tryggja að viðskiptavinir væru í réttum þjónustuleiðum en í lok árs höfðu þjónustuleiðir yfir 25.000 heimila verið yfirfarnar. Verkefnið hlaut góðar viðtökur hjá viðskiptavinum sem birtist meðal annars í aukinni ánægju í mælingum okkar en einnig í Ánægjuvoginni fyrir árið 2020.
Maí
Ný útvarpsstöð fór í loftið - Íslenska Bylgjan
Skemmtileg viðbót við Bylgjuna fór í loftið á vormánuðum er Íslenska Bylgjan var stofnuð. Útvarpsstöðin hefur þá sérstöðu að spila aðeins íslenska tónlist eða tónlist eftir íslenskt tónlistarfólk. Útvarpsstöðin hefur hlotið frábærar viðtökur og var stöðin verðlaunuð fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar er hún vann til nýsköpunarverðlauna á degi íslenskrar tónlistar.
Júní
Innlend dagskrárgerð í aðalhlutverki
Þegar ljóst var að Íslendingar gætu ekki farið utan þetta sumarið blés Stöð 2 til sóknar í innlendri þáttagerð á landsbyggðinni til að kynna fyrir landsmönnum það sem Ísland hefur upp á að bjóða. Fjallað var um þá nýsköpun og þjónustu sem boðið er upp á á Íslandi og Íslendingar hvattir til að velja íslenskt. Dæmi um þætti sem framleiddir voru eru: Bibba flýgur, Ferðalangur í eigin landi, FC Ísland, Um land allt, Áttavillt og Matarbíll Evu.
Ágúst
Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2
Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 í samvinnu við STEF úthlutaði í ár alls 7,8 milljónum til 42 listamanna. Sjóðurinn hefur það markmið að styrkja tónskáld og textahöfunda til nýsköpunar. Meðal þeirra sem hlutu hæstu styrkina í ár voru Moses Hightower, Auður, Árstíðir, BSÍ, Elín Ey, Flóni, Helgi Sæmundur, Svala Björgvins, Ragnheiður Gröndal, Mr. Silla og Valdimar. Eitt af meginmarkmiðum miðla Stöðvar 2 og Bylgjunnar er að efla þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi þar sem íslensk tónlist er í öndvegi og með stuðningi við íslenskt tónlistarfólk. Með þessum hætti eflum við og auðgum íslenska menningu sem og fjölmiðlastarfsemi.
September
5G
Vodafone setti 5G formlega í loftið þann 1. september sl. og er fyrsti sendir fyrirtækisins staðsettur við höfuðstöðvar þess við Suðurlandsbraut. 5G er fimmta kynslóð farsímakerfa sem býður upp á allt að tíu sinnum meiri hraða en 4G með meðalhraða upp á 150-200 mb á sekúndu. Í tilefni dagsins hélt Vodafone kynningu á 5G og tengdri tækni fyrir viðskiptavini sína. Stefnt er á öfluga uppbyggingu á 5G fjarskiptatækni hér á landi á næstu árum, m.a í gegnum Sendafélagið sem er í sameiginlegri eigu Vodafone og Nova.
September
Fokk Ofbeldi
Vodafone hefur um árabil verið stoltur samstarfsaðili UN Women á Íslandi og þann 3. september hófst sala á FO bol UN Women í verslunum Vodafone. Bolurinn seldist upp á rúmum tveimur sólarhringum. Það söfnuðust alls 12 milljónir króna sem koma til með að renna beint til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í Líbanon.
Október
Nýir möguleikar í framleiðslu
Vísir og Stöð 2+ stóðu saman að framleiðslu nokkurra sjónvarpsþátta á árinu og heppnaðist samstarfið einkar vel. Meðal þeirra má nefna Skreytum hús, vinsælan þátt þar sem heimili Íslendinga eru tekin í gegn, og RAX: Augnablik, þar sem ljósmyndarinn þekkti segir sögurnar á bak við stórfenglegar myndir sínar.
Nóvember
Fyrstu PlayStation 5 vélarnar afhentar hér á landi
Mikil eftirvænting var í loftinu þegar Vodafone afhenti á miðnætti þann 19. nóvember sl. fyrstu PlayStation 5 vélarnar hérlendis. PlayStation 5 er eitt eftirsóttasta tæki veraldar og seldist það upp á örfáum klukkustundum er forsala hófst. Lukkulegir viðskiptavinir voru leystir út með gjafapoka af þessu tilefni sem innihélt glaðning og viðskiptavinir með fjarskipti sín hjá Vodafone fengu frían stýripinna að auki.
Nóvember
Samstarf Vodafone og Controlant tekur flugið
Undanfarin ár hefur Vodafone verið í nánu samstarfi við íslenska fyrirtækið Controlant um alþjóðlegt fjarskiptasamband á mælum á vegum fyrirtækisins. Controlant mælir gæði hitastigs lyfjasendinga um allan heim í rauntíma og með mælum Controlant fæst mun betri nýting á lyfjasendingum en áður hefur þekkst. Fyrirtækið leikur lykilhlutverk í dreifingu á COVID-19 bóluefni og sér Vodafone fyrirtækinu fyrir stöðugu og traustu sambandi í flestum ríkjum heims og tryggir þannig áreiðanleika mælinga. Einnig hefur hlutverk Vodafone verið að styrkja og byggja upp innviði um allan heim í samstarfi við Vodafone Global og önnur fjarskiptafyrirtæki til þess að tryggja stöðugt samband á mælum fyrirtækisins enda um viðkvæmar vörur að ræða.
Desember
Lestur á Vísi sjaldan mælst meiri
Mörg lestrarmet voru slegin á Vísi á árinu og var miðillinn sá stærsti á Íslandi þegar horft er til vikulegra notenda. Sterk staða miðilsins sést glögglega á yfirliti yfir dekkun netmiðla á fjórða ársfjórðungi en þar kemur fram að 91% Íslendinga á aldrinum 18-65 ára les miðilinn vikulega.
Desember
Samningur við Orkuveituna
Vodafone hélt áfram að leiða snjallvæðingu samfélagsins en þann 1. desember sl. var tilkynnt um samning Veitna við Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf-, hita- og vatnsveitu. Lausnin mun byggjast á léttbandssamskiptatækni (e. Narrowband) sem verður veitt af Vodafone. Aðkoma Vodafone að verkefni Veitna er byggð á áralangri reynslu félagsins á þessu sviði, aðgangi þess að sérfræðiþekkingu og hagstæðum samningum í gegnum samstarf við Vodafone Group. Mikill vöxtur er í ýmiss konar snjalllausnum hjá fjölda viðskiptavina Vodafone en samstarf við Veitur tengir um 160.000 snjallmæla sem byggjast á léttbandstækni við þjónustu félagsins.
Desember
Aurflóð á Seyðisfirði
Þann 15. desember var óvissustigi Almannavarna lýst yfir á Seyðisfirði eftir hamfararigningar. Næstu vikuna fóru aurskriður yfir hluta bæjarins. Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Egill Aðalsteinsson fréttamenn á Fréttastofu Stöðvar 2 voru í bænum í sex daga og fjölluðu ítarlega um náttúruhamfarirnar. Í ljósi atburða vildu Vodafone og Stöð 2 létta undir með íbúum Seyðisfjarðar og varð því úr að felldir voru niður reikningar hjá viðskiptavinum Vodafone og Stöðvar 2 og einnig var öllum íbúum Seyðisfjarðar boðinn aðgangur að öllu sjónvarpsefni endurgjaldslaust.
2020

Svipmyndir frá árinu

Samkoma Stöð 2, Vísir og Bylgjan stóðu fyrir tónleikaröðinni Samkoma í samkomubanninu í mars og apríl. Fjöldi þjóðþekktra listamanna, meðal annars Ellen, Bríet, Krummi, Snorri Helgason og Reykjavíkurdætur komu fram í beinni útsendingu og skemmtu Íslendingum með tónlist sinni og sögum.
Bítið í beinni Í upphafi samkomubanns var Í bítið með Heimi Karlssyni og Gunnlaugi Helgasyni færður í myndver Stöðvar 2 og sendur út samhliða í sjónvarpi og útvarpi.
Sýnataka fyrir landsleik Sigurður Már Davíðsson myndatökumaður Stöðvar 2 Sport gengst undir sýnatöku fyrir landsleik. Mikill viðbúnaður var vegna landsleikja og þurftu starfsmenn að fara í sýnatöku sólarhring fyrir hvern leik.
Hlustendaverðlaun Hlustendaverðlaunin voru haldin í 7. skipti þann 4. mars 2020 í Silfurbergi Hörpu. Verðlaunahátíðin fór fram í beinni útsendingu á Stöð 2. Hlustendur Bylgjunar, FM957 og X977 verðlaunuðu þar þá íslensku tónlistarmenn sem stóðu uppúr á árinu 2020. GDRN var valin söngkona ársins, Auður valinn söngvari ársins og fékk Páll Óskar Hjálmtýsson sérstök heiðursverðlaun.
Kosningar 2020 Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands kíkti á félagana í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og ræddi um kosningabaráttuna, stuttu fyrir kjördag.
Fréttastofan Vaktin á fréttastofugólfinu þennan dag var óvenju kvenlæg. Ef vel er gáð má þó sjá einn karlkyns starfsmann á myndinni. Flestir aðrir vinna að heiman.
Afhending á PlayStation 5 tölvum Starfsmenn Vodafone afhentu fyrstu PlayStation 5 tölvurnar hér á landi. Huga þurfti vel að öllum sóttvörnum og hugsa aðeins út fyrir kassann þegar kom að viðburðum hjá okkur þetta árið.
Leitin að upprunanum Það var létt yfir teyminu sem stendur að þáttunum Leitin að upprunanum er þau fengu tilnefningar til Edduverðlauna 2020 fyrir Frétta/viðtalsþáttur ársins og Sigrún Ósk tilnefningu sem Sjónvarpsmaður ársins.
Söfnun fyrir SÁÁ Framlínu starfsmenn Vodafone stóðu vaktina og tóku á móti símtölum í kringum styrktarsöfnun SÁÁ. Enn fleiri starfsmenn tóku þátt heiman frá.
2 metra reglan Henry Birgir Gunnarsson tekur viðtal við Roberto Martinez landsliðsþjálfara Belgíu úr góðri fjarlægð.
Hádegisfréttir að heiman. Hádegisfréttir á Bylgjunni les Margrét Helga Erlingsdóttir, að heiman með Ísabellu dóttur sinni.
Framadagar Við kynntum starfsemi okkar miðla fyrir fjölmiðlastjörnum framtíðarinnar á Framadögum 2020.
Sóttvarnir til fyrirmyndar Ómar Úlfur, útvarpsmaður á X-977 stóð sína vakt og var ávallt með allar sóttvarnir til fyrirmyndar í stúdíóinu.
Sóttvarnir upp á 10 Þau Kristófer Helgason, Þórdís Valsdóttir og Bragi Guðmundsson þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis, voru með allar sóttvarnir upp á 10 í stúdíói Bylgjunnar.
5G Kynning Þeir Trausti Guðmundsson og Sigursteinn Arndal frá fyrirtækjasviði Vodafone kynntu fyrir viðskiptavinum Vodafone nýjustu 5G tæknina.
Komu, sáu og sigruðu Kviss Stórskemmtilegur spurningaþáttur með Birni Braga fór í loftið sl. haust og hlaut frábærar viðtökur. Sóli Hólm og Sólrún Diego stóðu uppi sem sigurvegarar og voru krýnd Íslandsmeistarar í Kviss spurningakeppni árið 2020.
Matarvagn Evu Eva Laufey ferðaðist um landið sl. sumar með matarvagn í eftirdragi. Hún heimsótti skemmtileg bæjarfélög, kynntist nýsköpun í matargerð frá hverju svæði og útbjó gómsætan mat sem bæjarbúar fengu að smakka.
Fyrsta konan á stjórnborðinu Elínborg Rós var fyrsta konan til að sinna eftirliti á stjórnborði okkar. Þar er stöðugu eftirliti með öllum okkar kerfum sinnt, allan ársins hring, sem tryggir toppþjónustu við okkar viðskiptavini.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.