NÝTT UPPHAF
Heldur betur!
Hvað stendur upp úr á árinu 2020 hjá Sýn? Mitt svar er þrautseigja og kjarkur stjórnenda og starfsfólks. Við héldum okkar striki og stefndum fumlaust áfram í að gjörbreyta fyrirtækinu til betri vegar. Stefnan er skýr, við erum til fyrir viðskiptavini okkar. Við viljum tengja þá saman, skemmta þeim og segja þeim fréttir, betur en aðrir. Við viljum auðvelda fólki og fyrirtækjum lífið með því að nýta nýjustu tæki og einfalt viðmót í fjarskiptum og afþreyingu. Við viljum verðlauna tryggð og þétta raðirnar. Að þessu hefur allt starfsfólk unnið af miklum dugnaði á liðnu ári við vægast sagt óvenjulegar aðstæður.
Ár viðsnúnings
Ef ekki hefði verið fyrir heimsfaraldurinn hefði síðasta ár skilað hagnaði. Fyrir tæpu einu og hálfu ári hófst stefnumótun í öllu fyrirtækinu. Sú vinna var unnin þvert á allar deildir og var algjörlega sjálfsprottin, án utanaðkomandi aðstoðar. Út kom ný stefna þar sem ánægja viðskiptavinarins er í fyrirrúmi. Alger einhugur var hjá starfsmönnum um það. Í framhaldi af því var skipuriti fyrirtækisins breytt. Millistjórnendum var fækkað og boðleiðir voru styttar. Ný vörumerkjastefna var tekin upp og ný þjónustustefna. Við ýttum þessu úr vör á síðasta ári í miðjum heimsfaraldri. Viðtökurnar hafa samt ekki látið á sér standa.