Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Heldur betur!
Hvað stendur upp úr á árinu 2020 hjá Sýn? Mitt svar er þrautseigja og kjarkur stjórnenda og starfsfólks. Við héldum okkar striki og stefndum fumlaust áfram í að gjörbreyta fyrirtækinu til betri vegar. Stefnan er skýr, við erum til fyrir viðskiptavini okkar. Við viljum tengja þá saman, skemmta þeim og segja þeim fréttir, betur en aðrir. Við viljum auðvelda fólki og fyrirtækjum lífið með því að nýta nýjustu tæki og einfalt viðmót í fjarskiptum og afþreyingu. Við viljum verðlauna tryggð og þétta raðirnar. Að þessu hefur allt starfsfólk unnið af miklum dugnaði á liðnu ári við vægast sagt óvenjulegar aðstæður.
Við glönsum í innlendri dagskrárgerð. Við sáum það aftur og aftur á árinu 2020 og við vorum enn betri en við vorum árið 2019. Heillandi dagskrárgerð, stjörnur með þétt lið af hversdagshetjum að baki sér. Við erum stolt af fréttastofunni okkar. Hún segir fréttir á faglegan og hlutlausan hátt. Samvinna einstakra miðla er nú meiri og okkur miðaði vel í að miðla fréttunum á fjölbreyttari hátt en áður.
Það skína engar stjörnur ef þær hafa ekki braut. Sú braut er mynduð af hversdagslegum hlutum eins og ferlum, kerfum og samvinnu. Þar miðaði okkur líka vel og eftir áætlun. Við erum á fullri ferð við að einfalda málin fyrir viðskiptavini og okkur sjálf. Við erum að ljúka við fyrsta áfangann í nýju reikningakerfi. Það hljómar skrítið að nefna þetta í ársskýrslu en staðreyndin er sú að reikningakerfið hefur staðið fyrirtækinu fyrir þrifum. Það hefur hamlað sveigjanleika í sölu og valdið óánægju meðal viðskiptavina. Þess vegna skiptir þessi áfangi miklu máli. Við höfum líka náð góðum árangri í innleiðingu framlegðargreiningarkerfis sem skiptir höfuðmáli til að við getum forgangsraðað og beitt okkur þar sem augljóslega eru viðskiptalegar forsendur til staðar. Við erum líka að vinna í sölu innviða til að endurfjármagna félagið og skerpa línurnar. Það mun gera okkur kleift að vera í fararbroddi í innleiðingu nýrrar tækni og halda keik og fjárhagslega sjálfstæð inn í framtíðina.
Við vinnum af krafti með það sem við getum haft stjórn á en beitum okkur eins og við getum til að hafa áhrif á starfsumhverfi okkar. Það er með ólíkindum að við þurfum að keppa í hörðu samkeppnisumhverfi við starfsmenn á auglýsingamarkaði sem eru fjármagnaðir með sköttum á almenning. Það er líka með ólíkindum að stjórnmálamenn geri harðar kröfur til íslenskra fyrirtækja varðandi dagskrárgerð en fari bónarveg að erlendum keppinautum með sömu mál. Þetta verður að breytast. Lausnin er ekki ríkisvæðing einkafyrirtækja með styrkjum sem gera, beint eða óbeint, allar fréttastofur háðar fjárframlögum frá stjórnmálamönnum. Það er hættulegt. Við elskum að keppa en þurfum auðvitað sanngjarnar leikreglur, annað ber feigðina í sér fyrir okkur öll.
Fyrir hönd stjórnar Sýnar vil ég þakka viðskiptavinum, hluthöfum og öllum starfsmönnum fyrir liðið ár. Við hlökkum til framtíðarinnar.