Samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð í verki

Við sýnum samfélagsábyrgð í verki með því að sinna hlutverki okkar sem fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki af fagmennsku og ábyrgð.

Stoltir bakhjarlar

Við látum gott af okkur leiða og tökum þátt í fjölbreyttum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun samfélagsins.

UN Women

Vodafone hefur verið helsti bakhjarl FO-herferða UN Women frá upphafi verkefnisins og á síðustu árum hafa safnast 59 milljónir króna til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækari ríkjum heims. Vodafone hefur frá upphafi verkefnisins greitt allan kostnað við framleiðslu söluvarnings fyrir FO-herferðir ásamt því að styðja við markaðsstarf verkefnisins. Með framlagi og stuðningi Vodafone hefur allur ágóði af sölu FO-varnings runnið beint til mikilvægra verkefna UN Women.

KSÍ

Vodafone á Íslandi er einn af stærstu bakhjörlum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) en félögin eiga það sameiginlegt að vilja auka áhuga á knattspyrnu, styðja við starfsemi landsliða karla og kvenna og efla grasrótarstarf um land allt. Vodafone annast meðal annars fjarskiptaþjónustu KSÍ og veitir sambandinu tæknilega aðstoð. Þetta á meðal annars við á ferðalögum landsliðsins erlendis þar sem Vodafone á Íslandi tryggir öflugt og gott samband í samstarfi við Vodafone Group.

RÍSÍ

Vodafone er bakhjarl RÍSÍ sem leitast eftir því að styðja við grasrótarstarf á sviði rafíþrótta á Íslandi og samstarfi við stjórnvöld, foreldra og kennara þegar kemur að málefnum rafíþrótta á landinu. Vodafone hefur síðustu misseri tekið virkan þátt í ýmiss konar viðburðum tengdum rafíþróttum, m.a. með Vodafone-deildinni í CS:OG auk stuðnings við dagskrárgerð Stöð 2 eSports. Einnig hefur Vodafone boðið upp á námskeið og fræðslu þátttakendum að kostnaðarlausu þar sem áhersla er lögð á ábyrga þátttöku í rafíþróttum og heilsu leikmanna en rafíþróttir hafa reynst mörgum vel síðustu mánuði þegar ýmsar takmarkanir hafa verið á samkomum og þátttöku fólks í viðburðum af ýmsu tagi.

LANDSBJÖRG

Vodafone hefur verið bakhjarl Slysavarnafélagsins Landsbjargar í 12 ár og hefur fyrirtækið einnig átt afar farsælt samstarf við félagið á sviði fjarskiptamála. Með samstarfinu vill Vodafone tryggja að starfsfólk félagsins og björgunarsveitir landsins hafi aðgang að bestu mögulegu fjarskiptaþjónustu. Samstarfið hefur í gegnum árin komið báðum aðilum til góða því björgunarsveitir Landsbjargar hafa reglulega upplýst Vodafone um svæði hér og þar á landinu þar sem bæta þurfi samband og Vodafone brugðist við ábendingum. Við erum stolt af því að vera treyst fyrir því mikilvæga verkefni að annast fjarskipti Landsbjargar og annarra viðbragðsaðila og tökum þá ábyrgð alvarlega. Við erum jafnframt þakklát fyrir ómetanlegt framlag sjálfboðaliða og hvetjum alla landsmenn til að styðja við mikilvægt starf Landsbjargar.

Önnur góð málefni sem við styrktum árið 2020

Allur ágóði símakosningar í skemmtiþáttunum Allir geta dansað, sem sýndir voru á Stöð 2 við góðan orðstír, rann til góðgerðamála. Þau félög sem nutu góðs af eru Líf, Vildarbörn, Hjálpræðisherinn, Minningarsjóður Einars Darra, Landsbjörg og Ljónshjarta. Í lokaþættinum söfnuðust tæplega fjórar milljónir sem Stöð 2 færði Ljósinu sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda.

Í desember 2020 tók Vodafone þátt í söfnunarþætti SÁÁ, Fyrir fjölskylduna, sem sýndur var á Ríkissjónvarpinu. Vodafone sá söfnuninni fyrir traustri og áreiðanlegri fjarskiptaþjónustu og sinnti starfsfólk okkar því mikilvæga hlutverki að taka á móti söfnunarsímtölum ásamt sjálfboðaliðum frá SÁÁ. Um tveggja tíma útsending var frá þjónustuveri Vodafone, margir þjóðþekktir einstaklingar komu í heimsókn til okkar og var sóttvarnarreglum fylgt til hins ýtrasta. Fólk og fyrirtæki um allt land sýndu stuðning sinn í verki og lögðu sitt af mörkum til stuðnings SÁÁ, okkur öllum til heilla og alls söfnuðust um 43,4 milljónir króna.

Stöð 2 Sport auk KSÍ, HSÍ og KKÍ tóku höndum saman í fjáröflun fyrir íþróttafélögin í landinu. Með hverri áskrift að Stöð 2 Sport runnu 1.078 kr. á mánuði til félags að eigin vali á samningstímanum sem náði yfir yfirstandandi keppnistímabil. Tóku viðskiptavinir Stöðvar 2 Sports og íþróttaunnendur afar vel í þetta framtak og úr varð að alls runnu 9,5 milljónir til íþróttafélaganna í landinu.

Í janúar 2020 var Stöð 2 Sport með viðhafnarútsendingu fyrir leik Njarðvíkur og Keflavíkur þar sem öll upphitun fyrir leikinn tengdist körfuboltamanninum Örlygi Sturlusyni. Tekin voru viðtöl við hina ýmsu samstarfsmenn hans á körfuboltavellinum. Allur aðgangseyrir að leiknum rann beint í minningarsjóð Ölla og safnaðist í kringum leik og útsendingu alls 2,1 milljón króna.

Í þáttunum FC Ísland sem sýndir voru á Stöð 2 sumarið 2020 ferðuðust margir af þekktustu fyrrverandi knattspyrnumönnum Íslands um landið og skoruðu á knattspyrnulið á landsbyggðinni í góðgerðaleikjum til styrktar málefnum í hverju sveitarfélagi. Liðið gerði meira en bara að spila fótbolta en ýmsar skemmtilegar þrautir voru lagðar fyrir liðið með það að markmiði að safna áheitum. Til dæmis gaf Akranesbær 500.000 kr. í minningarsjóð Lovísu Huldar og í Vestmannaeyjum var 600.000 kr. safnað fyrir Góðgerðafélagið Ufsaskallar sem runnu til Krabbameinsfélagsins.

Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

17 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi árið 2016 og gilda til ársins 2030. Þessi víðtæku markmið, sem ríki heims hafa komið sér saman um, stefna að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim. Markmiðunum er ætlað að vera ákveðinn leiðarvísir fyrir samfélög og fyrirtæki um hvar áherslurnar ættu að liggja þegar litið er til velmegunar og mannréttinda.

Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Hér má sjá hvernig Sýn tengir starfsemi sína við nokkur Heimsmarkmiðanna. 

Vinnuvernd, samgöngustyrkir, íþróttastyrkir, búningsaðstaða, núvitundarrými, góð hjólageymsla, heilsustefna í mötuneyti, BESTA vinnuumhverfið, Heilsuleikar Sýnar, samstarf við Kara Connect.

Jafnlaunavottun, jafnréttisstefna, stefna Sýnar að auka hlut kvenna í fjölmiðlum.

Eingöngu er notast við endurnýjanlega orku í skrifstofuhúsnæði Sýnar. Notast er eingöngu við græna og sjálfbæra orku í gagnaverinu (DC) okkar sem skilur eftir sig lítið sem ekkert kolefnisspor.

Áhersla á góðan rekstur, Sýn er fyrirmyndarfyrirtæki með rúmlega 500 starfsmenn.

Samstarf við viðskiptavini um þróun á vöru og þjónustu, samstarf við háskóla í þróun og kennslu, þátttaka í þróun nýsköpunarfyrirtækja, þróun á nýrri götuljósastýringu, snjallari sorphirða, snjallir vatns- og rafmagnsmælar.

Samgöngusamningar við starfsmenn, styðjum við betra upplýsingaflæði fyrir sjálfbæran rekstur.

Áhersla á umhverfisvænar lausnir, kolefnisjöfnun í rekstri.

Mannauðsstefna, jafnréttisstefna, siðareglur, stefna gegn einelti og áreitni, stefna gegn peningaþvætti og mútum, vottun í upplýsingaöryggi, reglur um vernd persónuupplýsinga.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.