Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Ár viðsnúnings
Ef ekki hefði verið fyrir heimsfaraldurinn hefði síðasta ár skilað hagnaði. Fyrir tæpu einu og hálfu ári hófst stefnumótun í öllu fyrirtækinu. Sú vinna var unnin þvert á allar deildir og var algjörlega sjálfsprottin, án utanaðkomandi aðstoðar. Út kom ný stefna þar sem ánægja viðskiptavinarins er í fyrirrúmi. Alger einhugur var hjá starfsmönnum um það. Í framhaldi af því var skipuriti fyrirtækisins breytt. Millistjórnendum var fækkað og boðleiðir voru styttar. Ný vörumerkjastefna var tekin upp og ný þjónustustefna. Við ýttum þessu úr vör á síðasta ári í miðjum heimsfaraldri. Viðtökurnar hafa samt ekki látið á sér standa.
Ánægðari viðskiptavinir
Það er hægt að horfa á uppgjör fyrirtækis á hverjum ársfjórðungi fyrir sig og reyna að sjá hvert það stefnir. Mikilvægustu vegvísar til lengri tíma (e. leading indicators) eru hins vegar meðmælavísitala viðskiptavina (NPS). Vísitalan segir gríðarmikið um árangur í samkeppni, um framtíðarávinning, enda vinnst traust viðskiptavina og ánægja aðeins á lengri tíma. Við vorum mjög ánægð að sjá hversu mikið stökk Vodafone tók í íslensku ánægjuvoginni.
Við töpuðum hátt í milljarði vegna áhrifa heimsfaraldursins. Ef við tökum það út fyrir sviga r ljóst að árangur af nýrri stefnu hefði skilað okkur hagnaði á árinu 2020. Við ætlum okkur auðvitað að geta mætt óvæntum ytri áföllum og erum í því augnamiði að straumlínulaga reksturinn enn frekar. Því er svo við að bæta að ánægja starfsmanna fyrirtækisins hefur aldrei mælst meiri.
Fjölmiðlahlutinn nær alltaf til fleiri
Með breytingum á vöruframboði hefur okkur tekist að fjölga viðskiptavinum í sjónvarpi. Þeim fjölgaði um rúmlega 14,1% á árinu 2020. Við höfum stöðugt lækkað verð frá því að við tókum yfir fjölmiðlareksturinn. Verð á Stöð 2 Sport hefur helmingast á síðustu þremur árum og nú er hægt að skipta vörunni í innlent og erlent efni sem býður upp á áður óþekkt verð, 3.990 kr.
Nýja efnisveitan okkar Stöð 2+ er í miklum vexti og á síðasta ári fjölgaði áskrifendum um rúm 9%. Þetta er stærsta efnisveitan með íslenskt efni og hefur algera sérstöðu á markaði.
Samkeppnin við erlendar efnisveitur er ekki sanngjörn. Þær eru undanþegnar þýðingum, talsetningu og textun efnis. Við eigum ekki möguleika á að tryggja okkur vinsælustu erlendu þáttaraðirnar því þær eru löngu fráteknar af risunum á markaði. Með þessari íslensku sérstöðu sem við höfum, með Stöð 2, Stöð 2+ sem er stærsta íslenska efnisveitan og Stöð 2 Sport íslenskt á starfsemin framtíðina fyrir sér.
Í byrjun þessa árs lokuðum við fréttaglugganum enda er ómögulegt að reka metnaðarfulla fréttastofu á auglýsingatekjum þegar Ríkisútvarpið tekur alltaf stærri og stærri hlut og erlendir samfélagsmiðlar, sem starfa utan skatta og reglna, nálgast helming markaðarins. Ef Alþingi jafnar ekki leikinn, með því að láta alla starfa eftir sömu reglum, er ljóst að stærstu einkareknu auglýsingamiðlarnir munu hverfa.
Bylgjan er stærsta útvarpsstöð landsins og FM957 og X-ið halda sínu. Þá er Vísir orðinn stærsti vefur landsins. Ég bind miklar vonir við Vísi og tel að hann eigi mikið inni á komandi árum.
Að skilja frá innviði
Í ársskýrslu 2018 fjallaði ég, og þá sem formaður stjórnar, um hvernig fyrirtækið væri að breytast úr því að vera drifið áfram af innviðauppbyggingu og tækni í að verða þjónustumiðað. Þessa þróun má greina um allan heim og hún er jákvæð. Ástæðan er sú að efnahagsreikningur fyrirtækisins léttist. Fyrirtækið verður sveigjanlegra og betur í stakk búið til að takast á við samkeppni, bæði innlenda og alþjóðlega. Þetta eru því bæði hagsmunir hluthafa og viðskiptavina.
Í ársskýrslu ársins 2019 fjallaði ég um hve miklu skipti í nútímasamfélagi að draga úr sóun. Við höfðum á því ári skrifað undir viljayfirlýsingu við Símann og Nova um að skoða sameiginlega uppbyggingu 5G kerfis til að minnka fjárbindingu, efla öryggi kerfisins og bæta þjónustuna, neytendum til góða.
Á árinu 2020 stigum við mikilvæg skref í þessa veru. Með aðskilnaði óvirkra innviða fjarskiptakerfisins eykst skilvirknin. Við getum gert meira fyrir minna. Þá aukast líka tækifærin til sameiginlegrar uppbyggingar á 5G. Á sama tíma gefst tækifæri til að losa um fé og greiða upp skuldir sem stofnað var til við kaup á fjölmiðlaeignum árið 2017. Allt miðar þetta í sömu átt, að gera fyrirtækið sveigjanlegra, hluthöfum og viðskiptavinum til hagsbóta.
Framtíð fjarskipta
Það er oft sagt að 5G geri það sama fyrir tæki og heimili og 4G gerði fyrir einstaklinginn. 4G færði háhraðafjarskiptanet í hendur almennings sem gat óhikað streymt, tekið á móti streymi og nánast stundað vinnu með snjallsíma einan að vopni, eins og glögglega hefur komið í ljós á síðustu misserum. Hlutanet (e. Internet of Things, IoT) er einn angi af fjarskiptum framtíðar. Þar náðust miklir áfangar á árinu 2020.
Við höfum unnið með Controlant í yfir áratug. Við bjuggum til fyrstu sérhæfðu kortin sem fyrirtækið gat notað í mælana sína. Með samningi Controlant við Pfizer hefur vöxtur okkar í IoT verið ævintýralegur. Við höfum gert Ísland að eina landi heims sem hefur fleiri útistandandi símkort fyrir tæki en fyrir fólk. Við þetta bætist að við erum að fara tengja alla nýja snjallmæla Veitna á um 160.000 stöðum. Einnig hefur samstarf okkar við Vodafone Global gert það að verkum að nánast allir nýir bílar sem koma til landsins frá og með þessu ári munu tengjast við símkerfi okkar sem aftur léttir á viðhaldi bíla, dregur úr kostnaði við bilanagreiningu og eykur öryggi allra. Þarna erum við í algerum fararbroddi í uppbyggingu fjarskiptakerfis framtíðar.
Við kveiktum á fyrsta sendinum fyrir 5G í farsíma í september 2020. Við höfum farið mun hægar en við ætluðum okkur í þá uppbyggingu því skilmálar stjórnvalda varðandi úthlutun varanlegra tíðniheimilda liggja ekki fyrir. Þar finnst okkur eðlilegt að úrelt utanríkisstefna Donalds Trumps gagnvart Kínverjum ráði ekki ferðinni heldur viðskiptahagsmunir þjóðarinnar. Vodafone Global, sem er stærsta farsímafyrirtæki heims, fyrir utan China Mobile, og hefur þúsundir fjarskiptaverkfræðinga, segir ekkert hæft í ásökunum Bandaríkjamanna á hendur Huawei.